Um deildina
Öldungadeildin er fyrir hjúkrunarfræðinga 60 ára og eldri. Deildin hét áður Hlíf, deild ellilífeyrisþega innan Hjúkrunarfélags Íslands og var stofnuð 20. október 1980. Nafninu var breytt 1995 í Öldungadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hlutverk deildarinnar er fyrst og fremst að sameina og styrkja samstöðu hjúkrunarfræðinga sem náð hafa 60 ára aldri. Það er gert með því að skipuleggja og bjóða uppá margvísleg tækifæri til samverustunda. Jafnframt ber deildinni að gæta að ýmsum réttindum og skyldum félaga í deildinni, miðla til þeirra upplýsingum og vera stjórn Fíh til ráðgjafar jafnframt því að stuðla að tengslum við sambærileg félög erlendis.
Félagar Öldungadeildarinnar eru nú 580. Félagsgjöld eru engin. Skráning fer fram á skrifstofu Fíh eða hér á síðunni. Deildin telst til fagdeilda innan Fíh og nýtur tiltekinna réttinda samkvæmt lögum félagsins. Deildin ber ábyrgð á innra skipulagi og starfar í samræmi við starfsreglur sem stjórn félagsins og aðalfundur deildarinnar hafa samþykkt. Fastir liðir í starfsemi Öldungadeildarinnar eru haustfundur, jólafundur, aðalfundur og vor- eða sumarferð. Auk þessara viðburða hafa m.a. verið haldnir félagsfundir, farið í leikhús og vettvangsferðir skipulagðar.
Við bjóðum hjúkrunarfræðinga 60 ára og eldri hjartanlega velkomna í Öldungadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Stjórn
Formaður
Ragnheiður Haraldsdóttir
Varaformaður
Ásta Möller
Ritari
Kristjana Erna Einarsdóttir
Gjaldkeri
Steinunn Ingvarsdóttir
Meðstjórnandi
Guðbjörg Guðbergsdóttir
Varamaður
Sigríður Ólafsdóttir
Varamaður
Unnur Sigtryggsdóttir
Starfsreglur
Nafn
Öldungadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Hlutverk
Sameina og styrkja samstöðu hjúkrunarfræðinga sem náð hafa 60 ára aldri. Vera tengiliður við Fíh sem gætir hagsmuna félaga.
Aðild
Hjúkrunarfræðingar 60 ára og eldri í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga geta orðið félagar í deildinni. Óskað er aðildar á skrifstofu Fíh eða á heimasíðu deildar.
Stjórn
Stjórn deildarinnar skal skipuð sjö félögum þar af tveimur varamönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Stjórnarmenn og varamenn eru kosnir til tveggja ára í senn, endurkjör er heimilt. Kjósa skal formann sérstaklega. Að öðru leyti skipta stjórnarmenn með sér verkum, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Eigi skulu fleiri en þrír ganga úr stjórn hverju sinni.
Stjórn deildar skal stofna kennitölu fagdeildar og hafa alla bankareikninga á þeirri kennitölu. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum deildarinnar. Stjórn ber að halda utan um skjöl deildar og skrá fundargerðir.
Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í mars/apríl ár hvert og boðað til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara. Heimilt er að boða fund með rafrænum hætti. Aðalfundarboði skal fylgja dagskrá ásamt tillögum til breytinga á starfsreglum. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
- Árgjald ákveðið
- Breytingar á hlutverki og starfsreglum deildarinnar
- Stjórnarkjör
- Kosning skoðunarmanna
- Önnur mál
Starfsemi
Deildin heldur a.m.k 3 fundi á ári; vorfund sem er aðalfundur, haustfund og jólafund. Stjórn ákveður tíma og fundarstað. Heimilt er að boða fundi með rafrænum hætti.
Ársskýrsla
Deildin skal skila skýrslu um starfsemi sína til sviðsstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok marsmánaðar ár hvert.
Merki
Heimilt er að útbúa sérstakt merki fyrir fagdeild.
Slit deildar
Deildina er hægt að leggja niður á aðalfundi sé það samþykkt með ¾ hluta greiddra atkvæða á aðalfundi deildar. Skili deildin ekki ársskýrslu til stjórnar Fíh tvö ár í röð getur aðalfundur Fíh ákveðið að leggja hana niður.
Starfsreglum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund.
Starfsreglur þessar voru lagðar fyrir og samþykktar á aðalfundi 5. apríl 2017.
Markmið deildar
- að styrkja innbyrðis tengsl með hvatningu félaga til að sækja fundi deildarinnar.
- að veita félögum upplýsingar og kynna þætti sem tengdir eru hjúkrun.
- að efla gagnkvæman skilning félaga, fræðast og njóta góðra stunda saman.
- að standa vörð um réttindi og skyldur félaga í deildinni.
- að vera stjórn og nefndum Fíh til ráðgjafar.
- að virkja tengsl við deildir eldri hjúkrunarfræðinga erlendis.
Markmið deildar voru lögð fyrir og samþykkt á aðalfundi 5. apríl 2017.