Um fagdeildina
Langvinn lungnateppa er algengur sjúkdómur, sem koma má í veg fyrir og meðhöndla. Þessi sjúkdómur er ein algengasta dánarorsök fólks í heiminum og til mikils að vinna ef tekst að finna leiðir til að fyrirbyggja hann, eða greina sem fyrst svo hægt sé að hefja meðhöndlun á meðan sjúkdómurinn er enn á frumstigi.
Hjúkrun fólks með lungnasjúkdóma er kennd í grunn- og framhaldsnámi í hjúkrunarfræði, sem hluti af stærri námskeiðum og nokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga hefur einnig lokið rannsóknatengdu meistaranámi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, með áherslu á hjúkrun fólks með lungnasjúkdóma.
Samstarf við Lungnasamtökin
Fagdeild lungnahjúkrunar starfar náið með Lungnasamtökunum og á að minnsta kosti einn mann í stjórn samtakanna á hverjum tíma.
Virkni fagdeildarinnar
Fagdeild lungnahjúkrunar heldur tvo fasta almenna fræðslufundi, þ.e. haustfund og vorfund, sem er jafnframt aðalfundur.
Stjórn heldur fundi einu sinni í mánuði að undanskildum sumarmánuðum, annaðhvort í húsnæði Fíh við Suðurlandsbraut eða á TEAMS.
Erlent samstarf
Fagdeildin á samstarf við erlenda hjúkrunarfræðinga, t.d. í Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.
Ráðstefnan Nordic Lung Congress er stór, þverfagleg norræn lungnaráðstefna, sem er haldin til skiptis á Norðurlöndum. Hún er haldin í Reykjavík á tíu ára fresti og er þá á ábyrgð Fagdeildar lungnahjúkrunarfræðinga og Félags lungnalækna, sem skipa sameiginlega nefnd til undirbúnings og framkvæmdar. Undirbúningur að slíkri ráðstefnu tekur um tvö ár.
Fagdeildin er líka í samstarfi við Evrópusamtök lækna og hjúkrunarfræðinga um öndunarfærasjúkdóma (European Respiratory Society, ERS). Þau halda á hverju hausti stóra þverfaglega lungnaráðstefnu, en hún hefur aldrei verið haldin á Íslandi.
Innan ERS eru sérstakar deildir fyrir ýmsa faghópa. Assembly 9 er sameiginleg deild fyrir hjúkrunarfræðinga og fleiri faghópa. Sú deild skiptist í þrjár deildir, 9.1 sem er deild tæknifólks í meðferð lungnasjúklinga – hjúkrunarfræðingar taka þátt í þeirri deild. 9.2 er deild sjúkraþjálfara og 9.3 er deild hjúkrunarfræðinga. Því fleiri hjúkrunarfræðingar sem skrá sig í deild 9.3 innan ERS, því meiri möguleikar bjóðast þeim til að hafa áhrif á störf ERS og framlag á ráðstefnunni. Sömuleiðis skiptir máli að fræðilegt efni sem sent er til kynningar á ERS ráðstefnunni (fyrirlestrar eða veggspjöld) sé merkt hjúkrunarfræðingahópnum, 9.3, því þannig eykst það pláss sem hjúkrunarfræðingar fá til að kynna sitt efni.
Innan ERS starfa einnig önnur samtök hjúkrunarfræðinga, European Respiratory Nurse Association, skammstafað ERNA. Þau samtök hafa á sinni stefnuskrá að efla samvinnu hjúkrunarfræðinga í Evrópu, en eru óháð stjórn ERS. Tengiliður hjúkrunarfræðinga við ERNA er Gurpreet Randhawa, g.randhawa@educationforhealth.org
Stjórn
Formaður
Jónína Sigurgeirsdóttir
Ritari
Guðrún Árný Guðmundsdóttir
Gjaldkeri
Kolbrún Sigurlásdóttir
Meðstjórnandi
Karin Kristina Sandberg
Meðstjórnandi
Bryndís Stefanía Halldórsdóttir
Skoðunarmaður reikninga
Elva Dröfn Ingólfsdóttir
Skoðunarmaður reikninga
Guðrún Hlín Bragadóttir
Fræðastörf
Hugmyndafræði lungnahjúkrunar er að veita örugga, árangursríka og einstaklingshæfða, fjölskyldumiðaða hjúkrun, sem byggð er á gagnreyndri þekkingu, umhyggju, kærleika og virðingu. Hjúkrunarmeðferðin tekur mið af líkamlegum, andlegum, trúarlegum, menningarbundnum og félagslegum þörfum sjúklinga.
Meðlimir fagdeildarinnar hafa lagt sig fram um að afla sér menntunar og þekkingar sem nýtist til að bæta hag lungnasjúklinga og þróun hjúkrunarmeðferðar fyrir þá. Þessi hópur er virkur í rannsóknum og fræðastörfum og birtir niðurstöður rannsókna sinna í ritrýndum tímaritum og fagráðstefnum. Í fagdeildinni eru hjúkrunarfræðingar með doktorspróf og gegnir annar þeirra stöðu prófessors við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og allmargir hafa aflað sér meistaragráðu og hafa leyfi Embættis landlæknis til að kallast sérfræðingar í hjúkrun.
Menntasjóður
Styrkjum úr Menntasjóði ætlað að efla meðlimi fagdeildarinnar í klínísku starfi og skulu styrkþegar leggja til efni til flutnings á fundum fagdeildarinnar eða taka þátt í öðrum verkefnum að beiðni stjórnar.
Styrkir úr Menntasjóði eru veittir samkvæmt ákvörðun stjórnar ár hvert og getur hver félagi í mesta lagi fengið styrk annað hvert ár. Markmiðið er að úthlutun styrkja úr sjóðnum fari ekki yfir innkomu fagdeildarinnar af félagsgjöldum ár hvert, mögulegir styrkþegar þurfa að vera félagar í fagdeildinni og hafa greitt árgjaldið síðastliðin þrjú ár. Umsóknir skulu sendar á netfang gjaldkera fagdeildarinnar og innihalda eftirtaldar upplýsingar: Nafn, kennitölu, reikningsnúmer, vinnustað, í hvað á að nýta styrkinn og stutta samantekt um hvernig efnið mun nýtast til að efla hjúkrun lungnasjúklinga.
Starfsreglur
Fagdeild lungnahjúkrunar
Deildin heitir Fagdeild lungnahjúkrunar og heyrir undir fagsvið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Deildin var stofnuð árið 1996.
Hlutverk
Fagdeild lungnahjúkrunar vinnur að framgangi hjúkrunar á sérsviði hjúkrunar fólks með lungnasjúkdóma í samvinnu við fagsvið Fíh og er stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum, til ráðgjafar um málefni á sérsviði fagdeildarinnar (sbr. lög Fíh, 16.gr. Fagdeildir).
Aðild
Hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á hjúkrun lungnasjúklinga geta orðið aðilar að fagdeildinni. Stjórn fagdeildarinnar sér um skráningu í fagdeildina, sjá tengil á vefsíðu Fíh, www.hjukrun.is
Stjórn
Í stjórn skulu að lágmarki vera:
Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Formaður skal kosinn á aðalfundi, en stjórn skiptir með sér verkum að öðru leyti. Auk þess skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga. Kjörtímabil er tvö ár og endurkjör er heimilt. Í stjórn Fagdeildar lungnahjúkrunar skal vera a.m.k. einn stjórnarmaður með viðbótar- og/eða framhaldsnám á sérsviði hjúkrunar fólks með lungnasjúkdóma.
Aðalfundur
Aðalfundur Fagdeildar lungnahjúkrunar skal haldinn í apríl ár hvert og skal boða til hans rafrænt með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Reikningsnúmer fagdeildarinnar skulu koma fram í ársreikningi og skal ársreikningur lagður fram á aðalfundi.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á dagskrá skulu vera venjuleg aðalfundarstörf.
Fjárreiður
Bankareikningar Fagdeildar lungnahjúkrunar skulu vera á kennitölu fagdeildarinnar. Árgjald og innheimta þess er ákveðið á aðalfundi. Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi.
Um stefnuna
Stefna Fagdeildar lungnahjúkrunar beinist að sérsviði fagdeildarinnar og felst í því að:
- vinna að framgangi hjúkrunar
- standa vörð um fagmennsku í hjúkrun
- stuðla að þróun hjúkrunarþekkingar
- stuðla að eflingu rannsókna
- vera málsvari hjúkrunar
- hvetja félagsmenn til virkrar þátttöku í þverfaglegu samstarfi um hjúkrun fólks með lungnasjúkdóma
- stuðla að og taka þátt í að veita fræðslu um hjúkrun fólks með lungnasjúkdóma
- halda uppi virkum tengslum við fagfélög lungnahjúkrunarfræðinga hérlendis og erlendis
Sviðsstjóra fagsviðs Fíh skal kynnt stefnan og skal stefnan endurskoðuð árlega, fyrir aðalfund fagdeildarinnar.
Ársskýrsla
Fagdeild lungnahjúkrunar skal skila skýrslu um starfsemi deildarinnar til sviðsstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.
Merki fagdeildar lungnahjúkrunarfræðinga
Merki Fagdeildar lungnahjúkrunar var hannað af auglýsingastofunni Merkismenn í samvinnu við stjórn fagdeildarinnar. Rauði liturinn í merkinu táknar súrefnisríkt blóðið sem flæðir um líkamann, blái liturinn það súrefnissnauða sem kemur til baka til lungnanna frá vefjum líkamans. Sveipirnir í lungunum tákna loftflæðið um þetta mikilvæga líffæri.
Slit fagdeildar
Fagdeild er hægt að leggja niður á aðalfundi fagdeildar. Einnig getur aðalfundur Fíh ákveðið að leggja niður fagdeild hafi hún ekki skilað ársskýrslu til sviðsstjóra fagsviðs Fíh tvö ár í röð.
(Sjá Gæðaskjal í vörslu sviðsstjóra Fagsviðs Fíh, um stofnun, hlutverk og slit fagdeilda)
Samþykkt á aðalfundi Fagdeildar lungnahjúkrunar
15. október 2025.