Starfsmannasamtal og starfsþróunaráætlun
Markmið með starfsmannasamtali er að koma á góðum samræðuvettvangi milli starfsmanns og yfirmanns um starfið, auka skilning á gagnkvæmum kröfum og væntingum, veita endurgjöf um frammistöðu starfsmanns, ræða starfið og starfsumhverfi, yfirfara starfslýsingu og tryggja að starfsmaður þróist í starfi í takt við starfsemi og markmið vinnustaðarins. Æskilegt er að starfsmannasamtal fari fram árlega hið minnsta. Kjaramál eru venjulega ekki til umræðu í starfsmannasamtali.
Nauðsynlegt er að báðir aðilar undirbúi sig vel fyrir samtalið m.a. með því að yfirfara starfslýsingu, verkefni, verkefnastöðu og samkomulag/starfsþróunaráætlun frá samtali fyrra árs.
Starfsmannasamtöl byggja á viðtalsramma sem báðir aðilar hafa skoðað fyrir samtalið. Trúnaður á að ríkja um samtalið sjálft en gjarnan er gengið frá starfsþróunaráætlun í lok starfsmannasamtals, sem ríkir ekki endilega trúnaður um. Báðir aðilar bera ábyrgð á framkvæmd slíks samkomulags, þ.e. um starfsþróun næstu missera. Mælt er með því að starfsmaður og yfirmaður ræði saman reglulega yfir árið til að taka stöðuna á þeim þáttum sem starfsþróunaráætlunin nær til.
Mikilvægt er að horfa fram á veginn í starfsþróunarsamtali og taka fyrir verkefni og mál sem tilheyra nútíð og framtíð. Starfsþróunaráæltun getur verið af ýmsum toga og snúið að:
- Starfsþróun: sérstakar óskir/tillögur um námskeið, fræðslu, stuðning, vinnutíma, flutning milli deilda, breytt ábyrgðarsvið, breytt hlutverk o.fl.
- Persónulegum og faglegum markmiðum: s.s tímaáætlanir, samvinna, samskipti, þjónustu, starfsumhverfi, fjármál o.fl.
Það er líklegra til árangurs að skoða verkefnin sem eru í gangi núna og næstu misseri og setja markmið sem hafa áhrif á frammistöðu í framtíðinni. Vinnustaður þar sem virk starfsþróunaráætlun er til staðar skapar umhverfi sem stuðlar að faglegri þróun starfsmanna og auknum árangri.