Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Marga Thome

Gestur Rapportsins er Marga Ingeborg Thome, prófessor emerita við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, fálkaorðuhafi og heiðursfélagi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Marga er fædd í Saarlandi í Þýskalandi, svæðið var hernumið þegar hún ólst upp, lífsbaráttan var hörð og lítið um námstækifæri, sérstaklega fyrir stúlkur. Marga byrjaði að vinna sem gangastúlka á sjúkrahúsi þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Eftir að hún lauk hjúkrunarnámi fór hún til Sviss í ljósmæðranám þar sem hún kynntist klínískri kennslu, vakti það áhuga hennar á að kenna. Til þess að komast í nám til að fá kennsluréttindi þurfti hún fyrst að klára stúdentspróf, í því námi þurfti Marga að læra ensku og fór þá í sumarskóla í London. Þar kynntist hún Íslendingum, þar á meðal manninum sínum.

„Það var mjög gaman að tala við þá, ég var orðin mjög forvitin um Ísland og vildi kynnast manninum og landinu betur. Áður en ég fór í kennaranámið kom ég hingað til Íslands til að kynnast landi og þjóð, þetta skildi svo mikið eftir sig að ég kom aftur eftir námið,“ segir Marga.

Eitt af því sem kom henni á óvart þegar hún hóf störf á Borgarspítalanum var að sjúklingum var ekki skipt upp í flokka eftir því hafa þjónustu þeir fá í takt við tryggingar, fyrirkomulag sem Marga þekkti frá meginlandi Evrópu. „Ég fór að spyrja hvar væru deildirnar fyrir fyrsta flokks sjúklinga og þriðja flokks sjúklinga. Þá var mér sagt að hér fengju allir fyrsta flokks þjónustu,“ segir Marga.

Fjölbreyttasta námið

Um það leyti sem Marga flutti til Íslands var verið að setja á fót nám í hjúkrunarfræði á háskólastigi hér á landi, mikil eftirspurn var eftir kennurum. „Einhver vissi af mér og benti mér á að hitta Maríu Pétursdóttur, sem var í forsvari fyrir þessa námsbraut. Ég hitti hana og var ráðin á staðnum. Ég byrjaði að kenna hjúkrunarfræði í janúar 1974,“ segir Marga. „Ég var ekki enn búin að ná tökum á íslensku, þá byrjaði ég að kenna á ensku sem var skólatungumál fyrir mig. Þetta var ansi erfið byrjuð og nemendur mínir þurftu að þola rosalega erfiðan kennara. Með smá húmor komumst við yfir þetta.“

Marga varð fyrsti deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ, hún gengdi stöðu prófessors til 2012. Árið 2010 var hún sæmd fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðismenntunar og rannsókna.

Nám í hjúkrunarfræði hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma, líkt og samfélagið allt. „Námið var allt mjög læknisfræðilegt, við áttum ekki kennara í hjúkrunarfræði til að byrja með. Hjúkrunarfræði fékk alltaf meira og meira rými í námi eftir því sem að kennarar voru að menntast, fyrst erlendis og svo hér heima,“ segir hún. „Við erum alltaf að byggja á öðrum greinum og ég held að hjúkrunarfræði sé fjölbreyttasta nám í Háskóla Íslands hvað varðar fræðigreinar. Það er mikill styrkleiki og lætur námið nýtast svo vel, ekki bara á sjúkrahúsum heldur í samfélaginu öllu.“

Fólk mætti huga að eigin Wikipedia-síðu

Marga telur mikilvægt að skrá sögu hjúkrunarfræðinga, mjög gott sé að hafa heimildir fyrir þeim brautryðjendum sem lögðu grunn að hjúkrunarfræði hér á landi. Í stað uppflettibóka þá hefur alfræðivefurinn Wikipedia orðið vettvangur uppflettinga á merkum hjúkrunarfræðingum, nefnir hún sem dæmi að búið er að skrifa greinar um íslenska hjúkrunarfræðinga á þýsku útgáfu Wikipedia, sem þýðir að einhverjir þýskumælandi eru að fletta þeim upp. „Við þurfum að fara með tímanum við að skrá sögulegar heimildir,“ segir hún.

Eðli Wikipedia gerir það að verkum að hjúkrunarfræðingar sem skarað hafa framúr þurfa sjálfir að huga að eigin Wikipedia síðu, sjálf hefur Marga útbúið slíka síðu um sjálfa sig á þremur tungumálum. Margir vilja frekar sýna hógværð í stað þess að stíga slíkt skref. „Þetta er mikilvægt ævistarf sem aðrir ættu að fá að vita meira um. Það mætti hvetja fólk til að huga að þessu.“