Þing Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) fór fram 7. til 9. júní í aðdraganda alþjóðlegrar ráðstefnu samtakanna. Á þinginu komu saman fulltrúar þeirra 140 hjúkrunarfélaga sem eiga aðild að ICN, þar á meðal Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Á þinginu lögðu félög hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum fram eftirfarandi ályktun:
- Allar árásir á hjúkrunarfræðinga, annað heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eru fordæmdar harðlega, slíkar árásir eru brot á alþjóðalögum og grundvallarmannréttindum.
- Skorað er á stjórnvöld og aðra aðila að vopnuðum átökum að virða skyldur sínar samkvæmt alþjóðalögum um vernd heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og heilbrigðisstofnana.
- Lýst er yfir samstöðu hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem starfar á átakasvæðum. Þau hafa sýnt ótrúlegt hugrekki og óeigingirni við að halda áfram að veita umönnun við hættulegar og erfiðar aðstæður.
Öll félögin á Norðurlöndunum, þar á meðal Fíh, hafa beitt sér fyrir friði og ítrekað fordæmt ofbeldisverk í garð heilbrigðisstarfsfólks. Heilmikil umræða fór fram á þinginu um ályktunina en á því sitja einnig fulltrúar landa þar sem stríð og ófriður ríkir. Mikil samstaða var um ályktunina og var hún samþykkt einróma.