Sykepleiernes samarbeide i Norden
Samvinna hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) er svæðisbundin samvinna stéttarfélaga hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum sex. Ísland hefur verið aðili að samtökunum frá 1923.
Hlutverk SSN er meðal annars að beina athygli sinni að þróun og eiga frumkvæði í málum sem hafa áhrif á hjúkrunarfræðinga og hjúkrun á norðurlöndum.
Samvinnan á að leggja sitt af mörkum til áframhaldandi þróunar hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og hjúkrunar á Norðurlöndum. Til að styrkja þessa þróun á SSN að eiga samvinnu við og hugsanlega sækja um aðild að viðeigandi norrænum, evrópskum og alþjóðlegum samtökum. Opinbert tungumál SSN eru skandinavísku tungumálin, sænska, danska og norska, með möguleika á að nota ensku, bæði munnlega og skriflega.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur virkan þátt í starfi SSN. Formenn aðildarsamtakanna mynda stjórn samtakanna. Fulltrúi Fíh í stjórn SSN er Guðbjörg Pálsdóttir formaður Fíh.
The European Federation of Nurses Associations
The European Federation of Nurses Associations (EFN)eða Evrópusamtök hjúkrunarfélaga er ráðgefandi vettvangur hjúkrunarfræðinga gagnvart ESB. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerðist aðili að þeim í mars 1998.
Með aðild að EFN gefst félaginu möguleiki á að fylgjast með og hafa áhrif á stefnu ESB um hjúkrunarmál í framtíðinni, en stefna ESB í þeim málefnum sem og öðrum hefur bein áhrif á Íslandi vegna EES samningsins. Fundir samtakanna eru haldnir tvisvar á ári.
ICN - The International Council of Nurses
Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) eru samtök hjúkrunarfélaga í rúmlega 130 löndum. Ráðið var stofnað árið 1899 og eru elstu og víðfeðmustu samtök heilbrigðisstétta í heiminum. Hjúkrunarfræðingar stýra ráðinu og markmið þess er að tryggja: góða hjúkrun fyrir alla, vinna að skýrri stefnumótun í heilbrigðismálum um heim allan, framfarir í hjúkrunarþekkingu og auka virðingu hjúkrunar um víða veröld. Jafnframt vinnur ráðið að því að ávallt séu hæfir og ánægðir hjúkrunarfræðingar við störf.
Siðareglur Alþjóðaráðsins liggja til grundvallar starfsemi hjúkrunarfræðinga um allan heim. Staðlar ráðsins, leiðbeiningar og stefnumörkun varðandi hjúkrunarmálefni, menntun, stjórnun, rannsóknir og þjóðfélagsmál eru viðurkenndir á alþjóðavísu.
Alþjóðaráðið hefur sett sér þrjú aðalmarkmið og fimm leiðbeinandi megin gildi
Markmið:
að auka einingu hjúkrunar um allan heim
að stuðla að alþjóðlegum framförum hjúkrunarfræðinga og hjúkrunar
að hafa áhrif á heilbrigðis-, félags-, efnahags- og menntastefnu
Megin gildi:
1. Forysta byggð á hugsjón
2. Nýsköpun
3. Samstaða
4. Ábyrgð
5. Félagslegt réttlæti
Höfuðstöðvar Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga eru í Genf í Sviss. Nánari upplýsingar um málefni Alþjóðaráðsins eru á vefsíðu þess.